af ást til skipulagsmála

26 May 2020

„Það er mik­il­vægt að vanda sig, marka för í rétta átt og stíga heilla­spor í líf­inu – því við verðum þau spor sem við stíg­um“ (Gunnar Her­sveinn, Heilla­spor, 2020).

Sam­fé­lag­ið, umhverfið okkar og hag­kerfið er í end­ur­skoð­un. „Að allt verði aftur eins og…“  er ekki endi­lega ákjós­an­legt. Landið okk­ar, jörð­in, umhverfið og sam­fé­lagið allt þarf að end­ur­ræsa sig með nýjum for­merkjum og áhersl­um. Kann að vera að þetta hljómi rót­tækt – en án kröft­ugrar hand­bremsu og innri skoð­unar er bara frekar grá og ömur­leg fram­tíð sem bíður kom­andi kyn­slóða. 

Sjálf er ég er alin upp af verk­taka sem tók að sér að byggja mis­læg gatna­mót, brýr, fjöl­býl­is­hús og til margra ára göngu­stíga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu – hér var „stétta­bar­átt­an“ í allri sinni feg­urð. Ég er líka alin upp af grunn­skóla­kenn­ara sem frá tví­tugs­aldri hefur andað að sér og barist fyrir heimi fyrir börn, betri aðbún­aði, betri ramma og meira að segja betri fót­bolta­völl­um. Ég hélt alltaf að allan minn áhuga á skipu­lags­mál­um, bygg­ingum húsa og þak­deilum væri að sækja til pabba. Í dag sé ég betur og betur að það er ekki síst mann­elska mömmu sem knýr mig áfram. Að vilja vel fyrir fólk og mest börn – að búa til betri fram­tíð og ramma í kringum hana. 

Ég lærði nefni­lega nýtt orð um dag­inn, umhyggju­hag­kerfi – það hag­kerfi sem hefur haldið sam­fé­lag­inu gang­andi sl. mán­uði. Sem sam­fé­lag tókum við höndum saman og pössuðum hvert ann­að, gáfum það pláss sem þurfti til umönn­unar og stól­uðum á sam­heldni. Þarna er komið orðið sem vantar inn í skipu­lags­mál – að búa til skipu­lag af umhyggju, ekki af skugga­varpi, nýt­ing­ar­hlut­falli, hæð húsa eða fjölda bíla­stæða!

Skipu­lags­mál verða að taka mið af umhyggju fyrir umhverf­inu, nátt­úr­unni, fólki, efna­hag og börn­um, fram­tíð­inni. Okkur verður að bera gæfa til þess að okkar mann­gerða umhverfi geti fóstrað og alið upp börn. Aðgengi, sól, skjól og skap­andi umhverfi verður að vera útgangs­punktur í allri okkar hönn­un. 

Á þessum tímum án for­dæma sést enn betur hve nauð­syn­legt það er að góðir leik­vell­ir, gróður og feg­urð umlyki okk­ur. Við þurfum að finna fyrir faðm­lag­i. 

Skipu­lag er og verður alltaf fyrst og síð­ast fjár­mál – nýt­ing­ar­hlut­fall og bygg­ing­ar­heim­ildir eru og verða eilífar um leið og deiliskipu­lags­til­laga er sam­þykkt. Það reynir því á að búa til „mann­eskju­hlut­fall“ og gæða­grein­ingar sem sam­svara íslenskum raun­veru­leika og breidd­argráðu. 

Nýlega hafa verið kynntar og verið til umfjöll­unar áætl­anir í Hamra­borg Kópa­vogi og í Hraunum Hafn­ar­firði. Báðar áætl­anir ríma vel við þétt­ing­ar­á­form, svo vel að varla sést til sólar né mikið um sól eða skjól þannig að fjöl­breytni og mann­líf mun dafna illa. Áætl­an­irnar eru góðar fyrir fjár­magn, og enn betri til að selja áfram, veð­setja og búa til meira fjár­magn. En þær eru ekki eins góðar fyrir fólk og enn verri fyrir börn og tré. Hér er lítið um jarð­teng­ingar þannig að góð og há tré eða gróður getur illa dafn­að. Bíll­inn mun hins­vegar kúra vel í mjög svo stórum bíla­kjöll­ur­um. Nær væri að skoða ódýr­ari lausnir, bíla­stæða­hús er alltaf hægt að umpóla síðar meir í hús fyrir fólk og þar er meira að segja hægt að hafa fjörugar jarð­hæðir og enn skemmti­legri þak­garða. Og í stað­inn fyrir rán­dýra bíla­kjall­ara þá þarf mögu­lega ekki að byggja eins mikið og margar hæðir sem þýðir að það er hægt að græða sól og búa til hús á skala sem hentar betur höf­uð­borg­ar­svæð­inu – ég veit… kreisí hug­mynd!

Það er bara svo mik­il­vægt að við vöndum okk­ur, að við nýtum rýmið vel núna þegar að við tökum á móti nýjum tíma. Sporin eru svo mik­il­væg, hvernig við­mót og hönnun er fram­borin fyrir fólk og sam­fé­lög. Borg­ar­línan og frek­ari fjöl­breytni í sam­göngu­formi er handan við horn­ið. Við vitum enn betur nú en áður hvað við þurfum á hvert öðru að halda, sem sam­fé­lag, sem vin­ir, sem fólk, af umhyggju. Gerum ekki bara eitt­hvað, gerum vel fyrir hvert annað og munum –  að fólk er flest á jörð­inni þó svo að fjár­magnið sé fast á 13. hæð, með nýt­ing­ar­hlut­fallið yfir 2 og tvö­faldan bíla­kjall­ara!

 „Börn kenna öðrum að það er vel þess virði að rækta undr­un, for­vitni og gleði“ (Gunnar Her­sveinn, Heilla­spor, 2020 ). Við þurfum á frek­ari umhyggju að halda í skipu­lagi bæja og borg­ar­inn­ar, frek­ari jarð­teng­ingu. Það ger­ist ekki með því að eyða tím­anum í bíla­kjöll­ur­um.

Comments are closed.
Return top