fortíð, framtíð og allt þar á m i l l i
26 Jan 2011
Fortíð og framtíð Hafnarfjarðar_og tíminn þar á milli
Nú á tímum niðurskurðar og hagræðingar er rétt að horfa á hlutina í víðu samhengi. Til að ræða framtíð Hafnarfjarðar þarf að ræða fortíð hans. Fyrir hvað viljum við standa, hvert stefnum við og hvaða sérstöðu höfum við hér í Hafnarfirði? Boðaður niðurskurður, endalaus hagræðing og skert þjónusta verður daglegt brauð sem okkur er gert að venjast, eða hvað? Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands spyr í Vísi á dögunum hvort sveitastjórnarmenn séu gengnir af göflunum? Þar skrifar hann um tilviljunarkenndar sameiningar á skólum og að flest sveitafélög kvarti undan fjárhagslegri byrgði af rekstri skóla! Ég tek heilshugar undir spurningu Eiríks og efast um að fagleg sjónarmið, langtíma áherslur og ígrundaðar ákvörðunartökur hafi verið teknar hjá Hafnarfjarðarbæ og stjórnsýslu hans.
Áður en bæjarfélagið sker meira niður fræðslu og skólamálum sem bitnar á börnum okkar og unglingum væri rétt að við bæjarbúar yrðum upplýstir enn frekar um fortíðina og ákvörðunartöku liðins tíma. Hver var stefna bæjarins í uppbyggingu, velferðamálum og uppeldismálum? Svarið ætti ekki að vera lóðafjölgun og stækkun bæjarins í allar áttir. Var e.t.v. bara verið að ræða hvaða skóli fengi nýtt íþróttahús og fyrirlestrasal, sundlaug og mötuneyti?
Hvað með okkar ástkæru íþróttafélög? Var einungis verði að rífast um hver fengi stærstu stúkuna, stærsta húsið og flestu bílastæðin? Hver var málefnalega umræðan og stefna stjórnsýslunnar í heild sinni í þessum málum. Magn er nefnilega ekki það sama og gæði.
Hvað gerðist hérna, hvernig voru ákvarðanir teknar, var það gert faglega eða útfrá exelskjali með rauðum og grænum tölum? Var talað faglega um þá iðkun og það starf sem hvert hús ætti að hýsa?
Við þurfum að skoða verklagsreglur vegna framkvæmda, lántöku og vilyrða. Við þurfum að geta axlað ábyrgð, horft t.d. á íþróttafélögin okkar, framkvæmdir þar, rekstur og framtíðarmöguleika. Það er ekki nýtt ”góðæri” handan við hornið, en það er ekkert sem réttlætir það að við getum skorið endalaust niður á kostnað barna okkar. Íbúar Hafnarfjarðar verða að fá að sjá hvað er gert til að koma í veg fyrir óábyrgar ákvarðanir, hagsmunagæslu og ógagnsæi. Hægri eða vinstri, upp eða niður, það er nú sem við þurfum alvarlega á því að halda að hlutirnir séu gerðir af fagmennsku, af ábyrgð og af langtímasjónarmiðum, ekki með pólitíkst plott eða pot að leiðarljósi.
Það er staðreynd að skólastjórar og starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hafi byggt upp gott starf á löngum tíma sem taki ekki langan tíma að rífa niður.
Mikið hefur verið rætt um sameiningu sveitafélaganna sem einn af aðal hagræðingarkostum höfðurborgarsvæðins. Það má vel færa rök fyrir því að það sé rétt, en sjálf er ég á því að áður en við höldum lengra með þá umræðu þurfi að skilgreina betur þau gæði og gildi sem við höfum. Það er sérstakt að búa hérna. Við getum verið sammála um hversu gott er að hafa hraunið, álfana, höfnina og frábær útivistarsvæði allt í kringum okkur. Hér er vel hægt að sækja alla þá þjónustu sem bæjarfélag þarf á að halda til að vera sjálfbært. En erum við að nýta alla þá möguleika sem bærinn hefur? Er verið að skipuleggja framtíðina í dag ? Við þurfum að koma miklu sterkari frá þessu tímabili en við vorum þegar ”góðærið” grasseraði. Það getur vel verið að við höfum haft fjármagnið, hugsjónina höfðum við ekki og því stöndum við þar sem við erum í dag.
Til að geta haldið áfram þarf að nást sátt. Það þarf að horfast í augu við gerða hluti og tryggja að þeir gerist ekki aftur með sömu formerkjum. Við viljum fá að sjá uppgjör við fortíðana, finna fyrir ábyrgð hjá stjórnsýslunni og von um breytt vinnubrögð. Hér er ekki verið að tala um sökudólga, blóraböggla eða hengja bakara fyrir smið. Við þurfum að horfast í augu við fortíðina til að sjá framtíðina.
Áhugaverður og vel skrifaður pistill Borghildur, og á án efa við flest sveitafélögin í landinu sem og stjórnsýsluna alla.