Ég sé mikil tækifæri í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í. Nú getum við með samstilltu átaki tileinkað okkur hugsunarhátt sjálfbærrar þróunar fyrir landið allt, á öllum sviðum samfélagsins. Til þess þarf fagfólk úr ýmsum áttum að taka saman höndum í stað þess að treysta á stjórnmála- og embættismenn. Ég er reyndur arkitekt, kona og móðir, gift dönskum manni sem trúir líka á framtíð Íslands og meistarnemi í umhverfisstjórnun við HÍ. Eins og margir Íslendingar hef ég þurft að takast á við erfiðleika í kjölfar efnahagshrunsins. Verði ég kosin á stjórnlagaþing mun ég nýta þekkingu mína, bakgrunn og reynslu til að leita lausna með ólíkum hópum til að móta undirstöðu fyrir framtíð okkar.

Ég vil axla ábyrgð, ég vil taka þátt í því að skapa framtíð barna okkar. Ég vil að við lærum af mistökum og séum tilbúin að leiðrétta þau til frambúðar. Síðustu ár höfum við ekki hugsað nóg um komandi kynslóðir. Stjórnarskráin á að taka mið af lífi okkar í dag en einnig að horfa langt fram í tímann.

Bakgrunnur minn

[hvað hef ég fram að færa?]

Sem arkitekt hef ég komið víða við á sviðum samfélagsins og stjórnsýslunnar. Manngert umhverfi snertir okkur öll, allan sólarhringinn frá  vöggu til grafar. Mannvirkin endurspegla ríkjandi gildismat í samfélaginu og efnahag hvers tíma. Í mínu fagi viljum við leggja áherslu á gæði, arf, þekkingu og hag samfélagsins og þær áherslur vildi ég sjá hafðar í heiðri á stjórnlagaþingi.

Ég stunda meistarnám í umhverfisstjórnun við Háskóla Íslands en námið er ein af þeim námsbrautum sem hægt er að velja í opinberri stjórnsýslu. Þau námskeið sem ég hef setið þar hafa opnað augu mín fyrir mörgu sem betur má fara í samfélagi okkar.

Virðing

[fyrir hvaða gildi stend ég?]

Lífsgæði snúast um fólk, um það að lifa vel og lengi. Gott líf snýst um virðingu fyrir öllu, fólki, náttúru og samfélaginu í heild sinni. Við verðum að bera virðingu fyrir landi okkar og samfélagi, virðingu fyrir hvort öðru, virðingu fyrir fortíðinni og framtíðinni.

Við þurfum að rækta arfinn okkar því að án þekkingar á fortíðinni er erfitt að skapa eitthvað nýtt. Virðing fyrir mismunandi þekkingu okkar og menntun, fjölbreytni og faglegum metnaði og því sem þessi margbreytileiki getur skilað á að vera okkar  leiðarljós því  það er hagur okkar allra!

Það er einstakt tækifæri að búa í landi þar sem beint lýðræði fær að ryðja sér til rúms og fá tækifæri til að taka þátt í að móta og smíða framtíð þessa lands. Með stjórnlagaþingi er okkur gefið einstakt tækifæri til að  móta stefnu fyrir okkur og komandi kynslóðir og byggja traustar undirstöður til framtíðar. Við verðum að hlúa að Íslandi og þykja vænt um landið okkar. Þetta á okkar nýja stjórnarskrá að undirstrika (eða breytingar á henni)!

Fagleg nálgun  til samfélagsmála

[hvernig hyggst ég vinna?]

Stjórnlagaþingið er einstakt tækifæri til að vinna stefnumótun fyrir Ísland og setja okkur markmið fyrir framtíðina. Með því að koma saman án aðkomu ríkisvalds og pólitískra áhrifa, erum við að lofa breyttum vinnubrögðum og annarri aðkomu að málum en við eigum að venjast. Sjálf á ég erfitt með að fylgjast með stjórnmálaumræðu í dag, traust og virðing vinnst ekki með því leikriti sem okkur er boðið upp á á hverjum degi.

Það er von mín að á stjórnlagaþingið komi saman fólk sem ber hag Íslendinga og framtíð þjóðarinnar fyrir brjósti.

Auðlindir okkar

Hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað þar sem stjórnvöld, almenningur og fagfólk tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærrar þróunar fyrir landið allt. Hér þurfa stjórnvöld að sýna fordæmi sem tekið er eftir. Á þessu sviði getum við markað okkur sérstöðu svo eftir sé tekið og náð framúrskarandi árangri. Þessi sérstaða jafnframt orðið okkar „útflutningsvara og í sjálfbærri þróun eru hjól atvinnulífs okkar”.

Bruntlandnefndin svokallaða, (skipuð hjá Sameinuðu þjóðunum af Gro Harlem Bruntland 1983) hafði það hlutverk að fjalla um umhverfi okkar og auðlindir. Nefndin skilgreindi árið 1987 sjálfbæra þróun á eftirfarandi hátt: „Sjálfbær þróun er þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.“

Þorvaldur Thorodssen skrifar eftir ferð sína um Múlasýslu árið 1897: „Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum.“ (Úr Ferðabók Þ.Th. nr. IV, (2. útg. 1959, bls. 289-290))

Nú er komin tími til að rífa okkur úr þeim viðjum sen við höfum verið í og hugsa um nútíðina en ekki síður um framtíðina.