af ást til skipulagsmála
26 May 2020
„Það er mikilvægt að vanda sig, marka för í rétta átt og stíga heillaspor í lífinu – því við verðum þau spor sem við stígum“ (Gunnar Hersveinn, Heillaspor, 2020).
Samfélagið, umhverfið okkar og hagkerfið er í endurskoðun. „Að allt verði aftur eins og…“ er ekki endilega ákjósanlegt. Landið okkar, jörðin, umhverfið og samfélagið allt þarf að endurræsa sig með nýjum formerkjum og áherslum. Kann að vera að þetta hljómi róttækt – en án kröftugrar handbremsu og innri skoðunar er bara frekar grá og ömurleg framtíð sem bíður komandi kynslóða.
Sjálf er ég er alin upp af verktaka sem tók að sér að byggja mislæg gatnamót, brýr, fjölbýlishús og til margra ára göngustíga á höfuðborgarsvæðinu – hér var „stéttabaráttan“ í allri sinni fegurð. Ég er líka alin upp af grunnskólakennara sem frá tvítugsaldri hefur andað að sér og barist fyrir heimi fyrir börn, betri aðbúnaði, betri ramma og meira að segja betri fótboltavöllum. Ég hélt alltaf að allan minn áhuga á skipulagsmálum, byggingum húsa og þakdeilum væri að sækja til pabba. Í dag sé ég betur og betur að það er ekki síst mannelska mömmu sem knýr mig áfram. Að vilja vel fyrir fólk og mest börn – að búa til betri framtíð og ramma í kringum hana.
Ég lærði nefnilega nýtt orð um daginn, umhyggjuhagkerfi – það hagkerfi sem hefur haldið samfélaginu gangandi sl. mánuði. Sem samfélag tókum við höndum saman og pössuðum hvert annað, gáfum það pláss sem þurfti til umönnunar og stóluðum á samheldni. Þarna er komið orðið sem vantar inn í skipulagsmál – að búa til skipulag af umhyggju, ekki af skuggavarpi, nýtingarhlutfalli, hæð húsa eða fjölda bílastæða!
Skipulagsmál verða að taka mið af umhyggju fyrir umhverfinu, náttúrunni, fólki, efnahag og börnum, framtíðinni. Okkur verður að bera gæfa til þess að okkar manngerða umhverfi geti fóstrað og alið upp börn. Aðgengi, sól, skjól og skapandi umhverfi verður að vera útgangspunktur í allri okkar hönnun.
Á þessum tímum án fordæma sést enn betur hve nauðsynlegt það er að góðir leikvellir, gróður og fegurð umlyki okkur. Við þurfum að finna fyrir faðmlagi.
Skipulag er og verður alltaf fyrst og síðast fjármál – nýtingarhlutfall og byggingarheimildir eru og verða eilífar um leið og deiliskipulagstillaga er samþykkt. Það reynir því á að búa til „manneskjuhlutfall“ og gæðagreiningar sem samsvara íslenskum raunveruleika og breiddargráðu.
Nýlega hafa verið kynntar og verið til umfjöllunar áætlanir í Hamraborg Kópavogi og í Hraunum Hafnarfirði. Báðar áætlanir ríma vel við þéttingaráform, svo vel að varla sést til sólar né mikið um sól eða skjól þannig að fjölbreytni og mannlíf mun dafna illa. Áætlanirnar eru góðar fyrir fjármagn, og enn betri til að selja áfram, veðsetja og búa til meira fjármagn. En þær eru ekki eins góðar fyrir fólk og enn verri fyrir börn og tré. Hér er lítið um jarðtengingar þannig að góð og há tré eða gróður getur illa dafnað. Bíllinn mun hinsvegar kúra vel í mjög svo stórum bílakjöllurum. Nær væri að skoða ódýrari lausnir, bílastæðahús er alltaf hægt að umpóla síðar meir í hús fyrir fólk og þar er meira að segja hægt að hafa fjörugar jarðhæðir og enn skemmtilegri þakgarða. Og í staðinn fyrir rándýra bílakjallara þá þarf mögulega ekki að byggja eins mikið og margar hæðir sem þýðir að það er hægt að græða sól og búa til hús á skala sem hentar betur höfuðborgarsvæðinu – ég veit… kreisí hugmynd!
Það er bara svo mikilvægt að við vöndum okkur, að við nýtum rýmið vel núna þegar að við tökum á móti nýjum tíma. Sporin eru svo mikilvæg, hvernig viðmót og hönnun er framborin fyrir fólk og samfélög. Borgarlínan og frekari fjölbreytni í samgönguformi er handan við hornið. Við vitum enn betur nú en áður hvað við þurfum á hvert öðru að halda, sem samfélag, sem vinir, sem fólk, af umhyggju. Gerum ekki bara eitthvað, gerum vel fyrir hvert annað og munum – að fólk er flest á jörðinni þó svo að fjármagnið sé fast á 13. hæð, með nýtingarhlutfallið yfir 2 og tvöfaldan bílakjallara!
„Börn kenna öðrum að það er vel þess virði að rækta undrun, forvitni og gleði“ (Gunnar Hersveinn, Heillaspor, 2020 ). Við þurfum á frekari umhyggju að halda í skipulagi bæja og borgarinnar, frekari jarðtengingu. Það gerist ekki með því að eyða tímanum í bílakjöllurum.