velkomin til Íslands eða ekki
5 May 2018
Við byrjum í Danmörku en nýjir borgarar í Árósum eru ævinlega boðnir velkomnir á borgaraskrifstofu borgarinnar – Dokk1. Hér skráir þig þú inn er þú flytur, en hér er jafnframt boðið uppá fjölbreytta þjónustu – hér er hægt að sækja um leikskólapláss, vegabréf og breyta lögheimili. Afgreiðslutíminn er líka breytilegur – þannig að það er hægt að sækja þjónustu utan vinnu og skólatíma. Margt af þessu er sannarlega hægt að gera rafrænt – en við flutning til borgarinnar gerir þú grein fyrir þér hér. Hér er líka stærsta bókasafn borgarinnar (hæ menntamálaráðherra og átak í lestri!), nýsköpunarfyrirtæki geta leigt aðstöðu, Borgarlínan keyrir hér undir og meðfram höfninni. Og rúsínan í pylsuendanum – hér er stórt málmrör (listaverk) sem kveður mikinn og kraftmikið hljóm í hvert skiptir sem að nýr borgari fæðist á fæðingardeild Árósar – velkomin til Árósar, allir!
Það er hægt að skrifa líka þykkan doðrant um þetta hús – þó svo að það hefði verið hægt að útfæra það á marga vegu þá er styrkur þess staðsetningin í miðborginni. Hér endar áin sem er kennimark borgarinnar, kanturinn og höfnin faðma húsið og svo fær það að vera á sínum tíma, líkt og Dómkirkjan hér steinsnar frá – er frá sínum tíma. Í Árósum búa aðeins fleiri en á öllu Íslandi og því er skalinn auðveldur fyrir okkur eyjabúa sem hingað komum.
Og skiptir þetta einhverju máli – skiptir einhverju máli hvernig borg og umhverfi tekur á móti okkur?
Já – það skiptir öllu máli ætla ég að fullyrða. Allar ákvarðanir sem að ríki og sveitafélög taka í formi aðgengis, upplýsinga og lögbundinnar skildu – skiptir öllu máli í okkar daglega lífi. Viðhorf, augnsamband, traust – að vera velkomin!
Og hvernig skipuleggur svo „ríkið“ á Íslandi, hvernig staðsetur ríkið þjónustu sína og hugsar um aðgengið?
Tökum nýjustu lagabreytingu (nr.80/2018 ný lög um lögheimili) en þar segir: Við tilkynningu flutnings til Íslands skal sá sem flytur koma í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi lögregluembættis, sanna á sér deili og skrá lögheimili sitt. Skal framvísa gildum persónuskilríkjum við skráningu.
Þegar að sýslumenn á Höfuðborgarsvæðinu voru sameinaðir þá var líklega verið að leita að hagkvæmu húsnæði, góðri leigu, nægum bílastæðum og mögulega miðju út frá landfræðilegri staðsetningu. Húsnæði í Kópavogi varð fyrir valinu en ég hvet ykkur til að prófa að komast þangað í strætó með 3 börn og endurnýja vegabréf án þess að missa meira en hálfan vinnudag úr skóla og vinnu.
Og hvaða skilaboð er verið að senda almenningi, nýjum og grónum borgurum landsins ef að við ætlum að láta lögregluembættið sjá um þessa skráningu – með fullri virðingu fyrir lögreglunni þá hefði ég haldið að þetta ætti frekar heima á bæjarskrifstofum sveitafélaga.
En mikið væri nú samt gaman ef að „ríkið“ gæti tæklað ákvarðanir sínar í takt við það sem að nútíma skipulagsmál snúast um, ef að t.d. húsnæðismál og lagabreytingar taki mið af nýtingu lands, aðgengi og upplifun í augnhæð fólks en ekki í gegnum bílrúður. Það hefur sjaldan verið eins nauðsynlegt og nú að skoða hvar og hvernig við mætumst sem manneskjur. Hvernig við hittumst og þar skiptir viðmót og fyrstu kynni miklu máli. Gerum ekki bara eitthvað – gerum vel og betur fyrir fólk en ekki stofnanir og gömul kerfi.