fegurðin býr í fólkinu
12 Nov 2019
Síðustu orð Guðjóns Samúelssonar voru „fallegt umhverfi er forsenda fyrir góðu samfélagi“. Sjaldan hefur fegurð verið okkur mannfólkinu jafn nauðsynleg og nú!
Nýr heimsveruleiki boðar breytta tíma, hlýnun jarðar, bráðnun jökla, flutningur fólks á milli heimshluta vegna hamfara, ætti fá alla ráðamenn heimsins til að hugsa og koma fram með róttækar lausnir. Vandamál samtímans verða ekki leyst með lausnum fortíðar.
Fegurðin skiptir öllu máli fyrir framtíðina og eru síðustu orð Guðjóns til vitnis um það. Í öllum stærðargráðum okkar umhverfis, hvort sem það er landslag (í skalanum einn á móti 10.000), byggðamynstur (1:5.000) skólar eða stofnanir (1:1.000), borgarrýmum eða göturýmum (1:500) matvörubúðin (1:10), eða bara heima hjá okkur, náttborðið, bókin sem við lesum eða maturinn sem við borðum (1:1) – þá skiptir fegurðin öllu máli.
Við stöndum á tímamótum þegar horft er til forgangsröðunar fjármagns. Nýr samgöngusamningur ríkis og sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu varpar ákveðinni fegurð á forgangsröðun fjármagns í formi Borgarlínu. Borgarlínan er nefnilega fjármagn fyrir fólk og flæði okkar á milli. Því skiptir viðmót, hönnun, umhverfi og uppbyggingin öllu máli. Ríki og sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa búið til einstakt tækifæri til að setja fagurfræði og fólk í forgang.
Að sami samgöngusamningur hafi birt orðið „Sundabraut“ er fjárhagsleg skekkja sem þarf að leiðrétta. Hér er verið að vasast með umdeilda fortíðar lausn sem gengur ekki upp til framtíðar, hvorki fjárhagslega, umhverfislega né samfélagslega. Hún rímar ekki við neitt gott – og alls ekki fólk
Það þarf að staldra við og skoða stofnanalandslag okkar. Geta stofnanir okkar brugðist við nýjum áskorunum? Hvernig er framtíðarsýn og sköpunarkraftur virkjaður í innviðum okkar? Vegagerðin er t.d. veghaldari þjóðvega samkvæmt vegalögum og hefur því forræði yfir vegi og veghelgunarsvæði, þar með talið vegagerð, þjónustu og viðhaldi vega. Vegagerðin hefur skilgreint hlutverk sitt á þennan hátt: „Að þróa og annast samgöngukerfi, á sjó og landi, á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins að leiðarljósi.“
Hér þarf að bæta inn orðum eins og „fegurð, fólk, hönnun, aðlaðandi umhverfi, skemmtilegt, gróður.“ Að eitthvað sé hagkvæmt er skv. íslenskri nútímamálsorðabók skilgreint sem fjárhagslegur ávinningur, sparnaður. Það er bara ekki nóg í dag að framkvæma eingöngu á hagkvæman hátt. Sparnaður í krónum í dag, leiðir oft til mikils kostnaðar í framtíðinni. Umhverfissjónarmið og skilgreining á því hvað sé gott fyrir samfélagið vantar. Vegagerðin er nú fyrir hönd ríkisins aðili að Borgarlínuverkefninu, það væri mjög gott ef að Umhverfisstofnun, Hönnunarmiðstöð, já og Skipulagsstofnun fengi jafnframt að leggja hönd á plóg. Ekki sem forræðisaðilar, með regluverki eða eftirlitsaðilar heldur stofnanir fullar af frjóu fólki sem veit hvað þarf til framtíðar.
Við þurfum á góðum stöðum að halda. Staði sem taka mið af umhverfi, útsýni, skjóli, gróðri og fólki, sem er á leið til vinnu, á leið í búðina, sem hittist, horfist í augu. Við þurfum að tala meira saman, haldast í hendur, faðmast og mögulega kyssast. Allt þetta bíður gott borgrými upp á þar sem að fegurð og gott fólk (samfélag) mætist.
Og svo þarf nýju stjórnarskrána – okei bæ!